Því miður liðið langt frá síðustu færslu. Mikið að gera og mikill gestagangur. Ég reyndi fyrir viku síðan að skrifa hér en það þurrkaðist allt út.
Geri aðra tilraun núna.
Byrja á því að þakka fyrir okkur síðan í Íslandsheimsókn og sérstaklega fyrir hann Björn Orra í afmælinu. Myndir komnar, sjá www.picasaweb.google.com/audurbj.
Björn Orri hefur reyndar ekki haft það sem best síðan hann kom heim. Hann hefur verið kallaður til skólastjórans og við líka á fund. Allt betra núna en í stuttu máli sagt þá hefur hann verið mjög ofbeldishneigður og erfiður í skapi. Hann hafði verið svona í allan vetur en eingöngu hér heima. Honum hafði reyndar verið farið að líða betur fyrir Íslandsheimsókn, farinn að tala nokkur orð í dönsku og farinn að vera rólegri. Þetta versnaði allt eftir heimkomu. Við foreldrarnir og leikskólinn tókum saman höndum í að vinna með þetta vandamál. Allar breytingar fara illa í hann. Hann þarf öryggi og reglu og mikla ástúð og umhyggju. Erum sem sagt að ná tökum á þessu. Hann vill aftur fara á leikskólann og hann er aftur farinn að tala smá dönsku. Okkar orka hefur því mest farið í að sinna litla skrímslinu okkar.
Eftir heimkomu höfum við líka fengið til okkar nokkra góða gesti. Fyrst komu Hallur, Steinunn, bumbubúi, Áróra og óperan Dagur. Mikið stuð hjá okkur. Dagur var súpergóður með börnin. Við fórum í Dyrehavs Bakken. Skemmtum okkur konunglega. Stelpurnar fóru í öll tækin og Björn Orri var duglegur líka. Skemmtilegast í vatnsbyssubátunum. Sumir urðu blautari en aðrir. Daginn eftir fórum við á markað sem var á Kongens Nytorv. Þar voru básar frá mörgum löndum. Gómsætur matur frá Ítalíu, Spáni, Frakklandi og Hollandi svo eitthvað sé nefnt. Svo var líka kínverskur bás sem Björn Orri hreyfst mjög af. Endaði með því að Hallur og Steinunn hrifust svo með honum að hann fékk eitt leikfangið í afmælisgjöf frá þeim. Það er maður í drekabúningi sem gengur áfram og kallar chi, cha, cho eða eitthvað undir þungum takti. Rosalega flott.
Svo komu Halli, Anna Fanney, annar bumbubúi og Oddur Jarl. Við brölluðum margt. Fórum í sumarbústað á Fjóni og í Lególand, aftur á Bakken, í hjólabrettagarð, á sýninguna Bodies, verslunarleiðangrar og ég veit ekki hvað og hvað. Rosa gaman.
Krakkarnir voru bæði rosalega hrifin af Oddi og eltu hann útum allt á hjólabrettinu hans. Á Fjóni var veðrið ekki eins og við hefðum kosið. Skýjað, rok og rigning á köflum. Oddur lét það ekki á sig fá og stakk sér til sunds í sjóinn. Hann gerði eins og Nemó að synda út í bát. Sigga reyndi líka en hætti við vegna kuldakrampa.
Sveitin var falleg þarna í kring og gaman að keyra um. Við stoppuðum og keyptum ber á básum beint af bóndanum.
Tengdó komu strax á hæla ofangreindra. Mjög notalegt að fá þau og rólegheit eftir skemmtidagskrána áður. Við skruppum nú samt á Bakken líka. Ena var að koma hingað í fyrsta skipti og naut þess vel. Þetta var reyndar líka fjölskylduferð fyrir Enu en hún hitti meðal annars systur sína hér í fyrsta skipti.
Við fjölskyldan höfum líka brallað ýmislegt án gesta. Til dæmis keyrðum við einn daginn inn í dýragarðinn Knuthenborg. Dýrin ganga laus og það var stórkostlegt að sjá þau svona nálægt en samt var ég hálfsmeyk hjá tígrisdýrunum.
Einnig fórum við einn dag í listasafnið Louisiana í Humlebæk við Strandvejen. Krakkarnir höfðu gaman af því þar sem þar var verkstæði á þremur hæðum fyrir þau að föndra og gera sín eigin listaverk.
Núna um helgina komum við svo við á Drageyri og Amagerstrand. Kældum okkur í sjónum og gengum aðeins um gamla bæinn sem er svo fallegur. Jafnframt fórum við og leigðum okkur árabát í Lyngby í gær. Við tókum með okkur nesti og vorum í þrjá tíma að sóla okkur og njóta veðursins á vatninu. Um kvöldið komu svo Helgi Skúli og Kári í mat og sóttu vagn fyrir Helgu Lilju sem ætlar að leggja land undir fót í fyrsta skipti og koma og heimsækja Danaveldi núna í ágúst aðeins þriggja mánaða.
Framundan eru svo Þýskaland og alparnir. Nánar um það síðar....
Kveðjur Ádúa og co.
lørdag den 26. juli 2008
Abonner på:
Opslag (Atom)