lørdag den 6. september 2008

Sitt lítið af hverju

Erum nýbúin að sjá á eftir Guðmundi bróður til Ítalíu. Mjög notalegt að hafa hann hérna hjá okkur. Gerðum ekki mikið nema að slappa af. Fórum reyndar í hjólaferð frá Frederikssund til Roskilde með honum. Komum við á strönd og kíktum á víkingaskipin. Borðuðum niðri í bæ Roskilde og tókum lestina heim.

Ég keppti svo í 5x5 km hlaupi með NFI í KU og miðað við að vera bara með einn alvöru hlaupara í hópnum sem þurfti að hlaupa tvisvar því við vorum bara fjögur þá var árangurinn ágætur. Allir bættu sig allavega um nokkrar mínútur og er ég sátt með minn tíma sem var um 27 mín en var að hlaupa þetta á 33 mín á æfingum áður.

Vinnan fór í udflugt saman til eyjarinnar Hven í gær. Lagt var af stað frá Havnegade kl. 09.15 í góðu veðri og sigldum m.a. fram hjá litlu haffrúnni með stóran túristahóp í kringum sig og svo stóru nýju byggingunum óperunni og leikhúsinu. Svo eftir einn og hálfan tíma birtist þessi litla eyja sem liggur rétt fyrir utan Landskrona og tilheyrir Svíþjóð en sést samt frá safninu Louisiana í Humlebæk. Á þessari eyju bjó stjörnufræðingurinn Tycho Brahe ca. 1550 og þá tilheyrði eyjan að sjálfsögðu Danmörku. Hann uppgötvaði sem sagt eina nýja stjörnu í stjörnukerfinu, Cassiopeia. Eyjan er hugguleg lítil eyja með tjaldstæði og hjólaleigu meðal annars.

Í dag var Sigga í heimsókn hjá nýrri vinkonu sinni Sigrid, [sigríð]. Þær eru mjög lukkulegar með að vera nöfnur og eru þær saman í fiðlutímum.

Annars erum við enn ekki búin að pússla saman okkar vikuskipulagi. Eiríkur er að vinna með skólanum og svo er Sigga í fiðlu og sundi. Ég ætla líka að reyna að vinna svolítið.

Er núna að horfa á hana Siggu dansa við popptónlist fyrir framan sjónvarpið og hún er klædd upp eins og í tónlistarmyndböndum. Ég get svo svarið það, vissi ekki hvað hún væri komin á alvarlegt stig unglingaveikinnar.

Eiríkur er í hjólaferð með kunningja sínum og átti að koma við í mikróbrúerí. Held samt að hjólaferðin hafi verið skipulögð til þess að koma þar við. Ég sit hér og velti fyrir mér hvað á að vera í matinn, nenni ekki að elda.

Held svei mér þá að það liggi líka fatahönnunarhæfileikar í stelpunni minni. Hún er búin að hanna fínan prinsessukjól úr teppi og sjali.


Kv. Auður.