mandag den 15. december 2008

Örfrásögn dagsins

Í morgun var ég svo utan við mig að ég hjólaði tvisvar ökuleiðina í stað þess að halda mig á hjólastígnum og þurfti að stöðva bremsulausa hjólið mitt og beygja inn á stíginn. Afhverju var ég svona utan við mig? Eitthvað mikið að plana næstu daga, hugsaði ég með mér og hélt áfram að troða lífi næstu viku í litlar skúffur augnablikanna. Þó að fingur mínir væru vel geymdir inní ullarvetlingunum þá fann ég kaldan vindinn reyna að gera atlögu að þeim. Kuldinn hvarf fjótt úr líkamanum á hjólunum. Náði mér í blað dagsins á lestarganginum og byrjaði að blaða í því. Mál dagsins, skattur ríka fólksins, innbrot og þunglyndi hamingjusömu þjóðarinnar. Þunglyndi er víst sá sjúkdómur sem mest er leitað eftir á leitarsíðum hér í landi. Skýringar á reiðum höndum: Fólkið sem telur sig plagað af þunglyndi er yfirleitt á besta aldri og notar netið mikið við upplýsingaöflun, bla, bla. Þar næst grein um þjófnað. Viðtal við fólk sem varð fyrir því óhappi að brotist var inn til þeirra, jólagjöfum stolið og fleiri verðmætum. Aumingja fólkið fær áfallahjálp og fer snemma heim úr öllum boðum þessa dagana vegna þess að það vill vita hvort einhver óboðinn sé kominn heim til þeirra. Þjófarnir rótuðu líka í öllu, létu ekkert vera. Óþægilegt. Enda þvoði húsfrúin allt í húsinu, hátt og lágt. Úbs, lestin komin á skiptistöð og ég út. Jæja, áfram með lesturinn og áður en ég veit af komin á Íslands bryggju. Arka af stað í vinnu og ég fer að hugsa um konventeringar í Landnámu.

fredag den 31. oktober 2008

Matarboð og halloween

Við fengum tvo skólafélaga Eiríks í mat á þriðjudaginn, sem eru reyndar kvenkyns. Kemur ekki á óvart, Eiríkur virðist alltaf kunna best við sig í kvennafans. Stúlkurnar eru sem sagt eða voru með honum í hópvinnu, önnur er hætt, veit ekki afhverju. Önnur þeirra er dönsk, sú er reyndar hætt í námskeiðinu, og hin kínversk. Við buðum þeim uppá fisk, m.a. íslenskan þorsk, úr Fisk Bútík. Ég þurfti að leggja mig alla fram við að reyna að tala ensku, því ég er alls ekki í æfingu að hugsa á ensku. Enda blandaði ég fullt af orðum inní samræðurnar á dönsku. Hlýtur að hafa verið fyndið að hlusta á mig. Maturinn rann ljúflega niður, enda snilldarkokkur. Umræðurnar snerust mikið um fisk og nöfn á fisktegundum á ensku, dönsku og íslensku. Sigga Halla borðaði með auðvitað með okkur og borðaði vel en Björn Orri tók þann pól í hæðina að tala ekki, borða ekki og vera ekki. Hann bara hvarf inn í sinn heim inni í herbergi. Hann var svo sjúklega feiminn. Ég ákvað að vera ekkert að pína hann og lét hann bara vera en talaði samt reglulega við hann inni í herbergi til að láta hann vita að hann væri ekki einn í heiminum. Við þurfum greinilega að fara að vinna í þessu atriði og vera duglegri að fara í heimsóknir með hann. Hann tekur þetta með trompi á Íslandi í öllum stóru jólaboðunum. Kínverska stúlkan á dreng sem er jafngamall Birni Orra en því miður er hann ekki hér hjá móður sinni. Hann er heima hjá ömmu sinni í Shanghæ. Ekki auðvelt það, að ferðast svona langt frá barni sínu til að ná sér í menntun. Fjölskyldan stefnir reyndar á að flytja saman til BNA á næsta ári.

Nú eru börnin úti í vampíru- og draugabúningum að biðja um slik eða bjóða ballade. Hér flýtur sem sagt allt í sælgæti. Magapína fyrir suma. Mér hefur samt tekist að halda namminu frá Birni, annars væri hann hér frameftir allri nóttu með partý.
O, ó. Verið að berja á dyrnar. Kannski einhver ófögnuður.

Böh!