lørdag den 29. september 2007

Bilenyheder, flödeboller og mange andre forskellige ting

Fórum í misheppnaða bæjarferð í dag og komum köld og vot heim. Ætluðum að skreppa og kíkja á bílinn okkar í dagsljósi og gerðum það. Þá vorum við komin niður í bæ og ákváðum að halda okkur þar en höfðum ætlað í einhverja verslunarmiðstöð og skipta liði og reyna að finna einhverjar afmælisgjafir. En viti menn rigningin jókst og jókst og við gerðum ekkert nema að vökna meir og meir. Börnin voru reyndar vel sett í kerrunni góðu (stóru lokuðu hjólakerrunni). Ferðin byrjaði reyndar þannig að kvenkyns strætóbílstjóri lokaði á okkur vegna þess að hún hélt því fram að ekki væri leyfilegt að fara með kerruna í strætó. Við urðum því að sitja og bíða eftir næsta sem kom eftir tíu mínútur. Konan sem er að selja bílinn á íslenskan kærasta frá Hafnarfirði. Skemmtileg tilviljun. Þegar heim var komið fengum við okkur heitt heimalagað kakó og vínarbrauð. Við erum að elda kjúlla í ofni með einhverri sósu sem Eiríkur galdrar fram. Svo stór kjúklingur að við höfum hann í afgang á morgun. Við ætlum að baka köku á morgun en svo ætlum við að elda eitthvað sérlega gott á mánudaginn og hafa smáfjölskylduafmæli.
Framundan er líka haustfrí í skólunum, 13.-22. okt. Við gerum ráð fyrir að vera komin á bíl þá og taka svona tvo heila daga í dagsferðir. Ekki ákveðið enn hvað á að gera. Eiríkur ætlar að reyna að nota fríið líka í að vera duglegur að læra. Rosalega mikið að gera í skólanum hans og ég er afskaplega fegin að vera bara í hlutastarfi.
Allavega höfum við afrekað það núna að vera hér í tvo heila mánuði og auðvitað erum við líka að halda uppá það með afmælunum.
Bílafréttirnar eru þær að við erum að bíða eftir pappírum frá tryggingafélaginu og þá þurfum við að fara til þeirra og semja og fá plagg um að við ætlum að tryggja hjá þeim. Þá fyrst getum við gengið frá bílakaupum. Sem sagt gerist í vikunni og verður vonandi búið á föstudaginn þetta vesen.
Sigga fékk flödeboller í skólanum um daginn. Ákveðið var að á hverjum föstudegi ætli börnin að hygge sig og fá sér eitthvað gott. Við foreldrarnir eigum að skiptast á að koma með eitthvað gott. Síðast var súkkulaðikaka. Ég er að gæla við að koma með pönnukökur með sykri. En ekki fyrr en 2. nóvember.
Við Eiríkur erum komin í nefnd fyrir Kagsaafest sem verður haldin 3. nóvember. Ætti ekki að koma á óvart að við erum í matarnefnd. Þetta er svona árshátíð Kagsaabúa en eingöngu fyrir Íslendingana hér. Í fyrra mættu um 80 en veit ekki enn hvað margir búa hér. Allavega er íslenska algengasta tungumálið.

K.H.

mandag den 24. september 2007

Kaupmannahafnarlífið

Við vorum svo harðákveðin í því að vera án bíls að bíllinn okkar gaf upp öndina áður en við fluttum út. Nú erum við komin á aðra skoðun. Auðvitað skiptir svolitlu máli staðsetning íbúðar og það er einmitt málið. Okkar íbúð eða hús er ekki vel staðsett miðað við strætó- og lestarsamgöngur. Of mikið vesen ef við erum að kaupa inn og kaupa stóra hluti. Svo gefur bíll okkur líka frelsið að geta farið útúr borginni á stuttum tíma. Þannig að núna eyðum við kvöldunum á netinu að skoða bíla. Eiríkur fer í kvöld að skoða einn sem okkur leist vel á.
Mér finnst þetta hálfleiðinlegt því ég var svo ánægð með minn umhverfisvæna lífsstíl sem ég aðhyllist meira og meira en þá bara skiptum við bílnum seinna uppí umhverfisvænni bíl.
Talandi um umhverfisvænt þá er auðvelt að lifa umhverfisvænt hér. Mikið um vistvænar og lífrænar vörur og oft ekki mikið dýrari, jafnvel sama verð oft og á óvistvænu eða ólífrænu. Borgarbúar hafa fyrir löngu aðhyllst þennan lífsstíl og nú dreifist hann út um landið.
Ef þeir þétta Metrokerfið það mikið og dreifa því lengra út þá losnum við kannski einhvern tíma við bílinn?
Við höfum að minnsta kosti haldið okkur í formi síðan við fluttum. Við göngum heilmikið og hjólum. Það er gaman og við höfum kannað hverfið okkar ágætlega þannig. Vonandi höldum við því áfram og hvílum bílinn vel.
Sendi inn myndir af nýja félaganum við fyrsta tækifæri.

K.H.

tirsdag den 18. september 2007

Kallinn blogga

Ég datt aldeilis í lukkupottin í gær. Niðri í þvottahúsi er einskonar skiptimarkaður. Ég get t.d. sett föt sem eru orðin of lítil á börnin þarna inn svo einhver annar geti notað þau. Ég fékk t.d. fína skó á Björn Orra um daginn. Nema hvað í gær kíkti ég þarna inn og þá blasti við mér alger fjársjóður, þrjár VHS spólur með Helle Cristiansen líkamsræktarfrömuði og að auki fimm bækur eftir sama höfund. Spólurnar heita Godt form på 36 dager, Krop og sundhed og Styrketræning. Við skelltum okkur í spandexgallann í gærkvöldi og í stuttu máli sagt þá var orð ólíft inní íbúðinni þegar við vorum búin að horfa á allar spólurnar. Þetta var eins og að vera í sánaklefa en okkur leið miklu betur á eftir. Auður tók með sér bókina "Styrketræning på sengekanten" til að lesa í lestinni á leiðinni í vinnuna. Það sem við höfum verið að velta fyrir okkur er afhverju þessi fjársjóður var þarna. Ætli einhver hafi verið að uppfæra safnið á DVD eða kanski hefur manneskjan bara mist trúna á Helle og farið og fengið sér Jane Fonda safnið í staðin. Kanski varð hún leið á að vera alltaf ein heima að gera æfingar með Helle og ákvað að fara á stöðina til hennar. Hver ætli sé skýringin???. Þessi manneskja lítur örugglega hrikalega vel út.



Kv EK

torsdag den 13. september 2007

Reglan að komast á

Ró er að færast yfir okkur og við að venjast nýju lífi. Börnin í skóla og leikskóla á morgnana og Eiríkur í skólann. Ég fer þrisvar í vinnuna og bara í 5 tíma í senn. Þannig að ég tel á mér hárin allan hinn tímann sem ég hef útaf fyrir mig hér. Ætlaði að ganga í íslenska kirkjukórinn en lítur út fyrir að hann sé að lognast út af. Ég fer að horfa í kringum mig eftir einhverju öðru að gera. Reyndar er stelpubolti á miðvikudögum með stelpunum á kollegíinu. Eiríkur er líka að reyna að feta sig í félagslífinu og gengur betur en mér eins og alltaf. Spilar stundum bolta og blaðrar við alla og þekki því alla, einhvern undraverðan hátt. Sigga er óheppin að engin íslensk jafnaldra hennar er hér en hún leikur mikið við stelpuna við hliðiná okkur sem er 4 ára, hana Andreu. Hún er með Birni á leikskólanum og tekur það mjög alvarlega að passa hann vel fyrir mig því þau leika víst mikið saman þar. Sigga sagði við mig um daginn að hún vildi eiga strákavin. Það er nóg af þeim hér. Veit þetta á gott?

mandag den 3. september 2007

Björn Orri í aðlögun á leikskólanum

Fyrsti dagurinn á leikskólanum gekk vel. Leikskólinn heitir Kærnehuset og er hérna á kollegíinu. Fyrst vorum við inni að leika, svo var börnunum safnað saman á dýnu og þau sungu nöfn allra á deildinni. Deildin hans heitir Sommerfuglerne. Eftir það fóru þau í leik saman að læra litina og að para saman hluti. Björn Orri hékk bara í fanginu á mér eða var að leika einn. Loks fengum við að fara út að leika og þá naut hann sín betur. Margir íslenskir krakkar eru á leikskólanum þannig að auðvelt er fyrir byrjendur að finna leikfélaga og tjá sig. Annars eru líka handalögmálin notuð í samskiptum þegar rifist er um dót. Björn Orri er mjög hrifinn af alls kyns stórum bílum og hjólum sem eru úti á lóðinni. Annars tók íslensk vinkona Siggu hann alveg að sér og þau gleymdu sér í leik. Ég lét mig bara hverfa inn í húsið á meðan. Leikvöllurinn er fullur af sandi og svo eru stígar til að hjóla eftir, stétt við húsið og smá gras. Einnig eru stór tré á lóðinni. Leiktæki eins og bílar eru teknir út úr skúr á morgnana og svo eru tvær rólur, rennibraut, hús og sandkassi, þetta klassíska. Ég sá að stóru drengirnir voru mjög uppteknir í framkvæmdum við að færa til trjágreinar sem höfðu dottið, fullar af laufi. Minni krakkarnir fundu kónguló og hún var fönguð í lítið plasthús og stóð þar á borði svo allir gætu skoðað. Miklar framkvæmdir eru líka við leikskólann núna og voru krakkarnir einnig að fylgjast með því. Verið er að gera við húsnæði og taka lóðina í gegn. Til dæmis fór einn leiðbeinandinn (karlmaður) út fyrir í niðurrif á skúr. Fastur liður hjá okkur Birni Orra þegar við komum við á leikskólalóðinni er að heilsa uppá hænsni sem eru laus fyrir utan girðingu. Haninn er sérstaklega fallegur, svona svarbrúnn og grænn eins og íslenskir hanar.
Á morgun ætlar Björn Orri að koma með mat með sér og borða á leikskólanum og ég skrepp frá þegar börnin fara út að leika, um 10, og kem aftur að sækja eftir mat um 11:45.
Nú förum við að sækja Siggu á eftir og förum svo niður í bæ að koma af okkur töskum sem þurfa að fara aftur til Íslands.
Biðjum að heilsa öllum,
Glaðsaxarnir.