tirsdag den 16. oktober 2007

Efteraarsferien

Við erum búin að hafa það mjög gott í haustfríinu okkar. Mikil dagskrá hjá okkur. Byrjuðum á því að fara á menningarnótt í Kaupmannahöfn. Þurftum að kaupa passa til að komast frítt í lest og strætó og inn á atburðina, kr. 75 pr. fullorðinn mann. Öll söfn voru opin og opinberar byggingar líka. Ýmislegt að gerast. Við komum meðal annars við í grænlenska húsinu sem var mjög gaman. Þar söng grænlenskur kór í öllum sínum skrúða. Annars nutum við þess að ganga um og njóta stemmningarinnar. Á laugardeginum slöppuðum við af hér heima. Á sunnudeginum fórum við í bíltúr í yndislegu veðri á nýja bílnum okkar til Roskilde þar sem við gengum aðeins um við höfnina og skoðuðum víkingaskip en keyrðum svo áfram upp eftir Roskildefjord og við stoppuðum í Frederikssund. Ætluðum að finna fjöru eða strönd og skóg á leiðinni en gekk ekki vel. Í Frederikssund bjuggum við vinkonurnar sællar minningar í viku eða svo, 18 ára og brölluðum margt margt saman. Við fjölskyldan litum á höfnina, fórum í boltaleik þar sem endaði með því að boltinn fór í sjóinn en hann bjargaðist í land eftir nokkrar tilraunir. Eftir það fókusuðum við á að finna skóg. Erfitt að finna hreina náttúru hér. Allt svo skipulagt og þétt byggt. Við sáum til dæmis skóg á einum stað en fundum engan inngang, allt afgirt. Við urðum frá að hverfa og fundum annan með leiktækjum og allt. Vorum mjög sátt eftir daginn. Á mánudeginum fórum við í lítinn bæ kallaðan Dragör og er úti á Amager. Hluti bæjarins eru gömul hús við litlar götur. Bærinn stendur við litla höfn og á sumrin er hægt að fara í sjósund og horfa á Eyrarsundsbrúnna. Nokkrar sætar sérbúðir þarna og sáum líka lítið sætt bíó með flottum bíómiðum. Enduðum þennan dag svo í Ikea þar sem við keyptum nokkra hluti sem okkur vantaði til að betrumbæta heimilið eins og til dæmis hillur. Í dag fórum við í BonBonland. Þar erum við að tala um stóran skemmtigarð með fullt af tækjum fyrir fullorðna og börn. Við höfðum öll gaman að þessu. Fyrir leiktækjaóða þá eru þarna tveir frábærir rússibanar. Annar fer lóðrétt upp og dettur svo lóðrétt niður en samt aðeins til baka undir sig og hinn snýst allan tímann og fer samt í hringi. Brjálað. Þarna eru líka fallturnar. Við keyptum okkur bara inn og fórum í það sem okkur langaði ekkert túrband eða miðar eða annað vesen. Mjög gaman. Á morgun fer Björn Orri á leikskólann og Sigga kemur með mér í vinnuna. Eiríkur ætlar að læra. Um helgina ætlum við að fara á árshátíð með Lýsi hér í Kaupmannahöfn. Kannski reynum við að finna skemmtilega sundlaug líka fyrir krakkana.

KH
Glaðsaxarnir.

3 kommentarer:

Anonym sagde ...

Jæja Eiríkur dani. Þykir mér þú orðinn danskur eftir tveggja mánaða dvöl. Við frænkurnar Olga og Rut hin danskgifta, sitjum hér í Hólatjörninni og erum að reyna að komast í kontakt við þig. Rut og Pétur eru hér í heimsóikn ásamt línu yngstu dóttur sinni og smári er hér með í för.

Anonym sagde ...

Hæ fjölskylda...Pétur verður í Köben á ráðstefnu eftir helgina...frá sunnudegi til fimmtudags, hvernig getur hann komist í samband við ykkur og kannski kíkt í heimsókn?

kv
Fífa

Auðríkur sagde ...

Fífa: Allar upplýsingar hér á síðunni. Við gætum skotist eftir honum niður í bæ. Held ég sé með símanúmerið hans og gæti reynt að senda sms. Verst að hafa þig ekki með líka.
Olga: Við verðum bara að vera í sambandi við Rut og kíkja í heimsókn einhvern tíma. Gaman að kíkja í sveitina.
Kv. Auðríkur.