Ætli sé ekki best að halda uppá netleysið með munnræpu hér. Ekki margir aðrir sem vilja taka við henni. Við erum byrjuð að hugsa til jólanna hér. Búðirnar að fyllast af jólavarningi eftir haustfríið og svo erum við farin að hlakka til gestagangsins þá. Fyrst heimsækja okkur samt Hallur og Steinunn og síðast en ekki síst hún Áróra sem Sigga hlakkar mikið til að hitta. Þau ætla að vera hér þarnæstu helgi. Áróra reyndar styttra þar sem hún er að koma frá Íslandi alein ekkert smá dugleg. Svo fer að líða að afmæli Siggu eða reyndar þeirra beggja frænkna og þá verður afi Björn hjá okkur. Held hann komi klyfjaður íslensku gúmmilaði fyrir jólin. Guðmundur frændi/bróðir kemur svo 21. des. og verður til 6. jan. og restin af liðinu (Unnur OG Burkni og amma Sigrún og afi Björn (aftur)) kemur 27. des-6.jan.
Ég skrapp í stóran jólaundirbúningsverslunarleiðangur sem var bara frekar árangursríkur. Hitti á útsölur í barnafataverslunum og skoðaði úrvalið svo auðveldara verði að koma með börnin að máta seinna meir, jólaföt og -skó. Fór í Lyngby Storcenter. Algjört völundarhús þarna inni en þar eru H&M, Zara, Exit og fleiri minna eða meira þekkt merki. Ég rakst þar á risaskóverslun þar sem verðið var bara mjög sanngjarnt. Saknaði Unnar þar sem verslunarfélaga. Förum þangað saman seinna.
Börnin eru búin að ganga í gegnum aðlögunartímabil þar sem allt er ómögulegt en þau virðast vera að ná sér núna. Þau taka þetta út á mjög ólíkan máta. Foreldrarnir eru líka búnir að þurfa að bíta á jaxlinn því auðvitað er þetta erfitt fyrir þau líka stundum. Björn Orri er búinn að vera meira og minna alveg ómögulegur alveg síðan rétt áður en við fluttum út. Hann virðist vera að taka eitthvað þroskakast í sambland. Rólega barnið mitt er semsagt ekki lengur rólegt. Hann þarf að reyna á foreldrana hvað hann getur gengið langt með eigið sjálfstæði og getur það gengið ansi nærri þeim stundum. Við erum líka svolítið ringluð af því við vitum ekkert hvernig á að taka á þessu. Kunnum ekkert á svona. Eitt erfiðasta er samt að hann hefur ekki viljað fara að sofa síðan hann fékk nýja kojurúmið. Hann var svo auðveldur áður hvað það varðaði og lagðist bara og sönglaði sig í svefn. Núna er frelsið líklega að trufla hann og hann helst ekki í rúminu og virðist ekkert þreyttur. Ég stytti reyndar svefninn hans á leikskólanum niður í 1 klukkutíma og það er að bera árangur núna og hann virðist rólegri og ánægðari. Hann er mjög ánægður á leikskólanum og nýtur sín vel. Smá mont líka að Björn Orri hefur ekki verið duglegur að setjast á kopp eða klósett og sé ég framá að þetta taki lengri tíma en hjá Siggu en hann kúkaði (afsakið) í klósettið um daginn og það var mikil hamingjustund og honum mikið hrósað fyrir. Ekki hefur borið á áhuga á klósettinu síðan.
Sigga hefur verið að berjast við tungumálið og málleysið en það er allt að koma núna. Einnig reynir á að vera stóra systir núna og berjast þau um athygli foreldra á hvorn sinn hátt. Ólátabelgurinn vinnur samt of oft með neikvæðri athygli því miður og það fer fyrir brjóstið á þeirri eldri. Hún á reyndar ekki nógu marga félaga ennþá. Hún er svo félagslynd. Hún leikur samt mest við hana Stine í skólanum og Andreu nágranna og stundum hana Elínu nágranna. Þetta tekur bara tíma og hún hefur gott af því líka að róa sig niður og leika svolítið ein eða með okkur. Hún er enn að kvarta yfir að búa ekki á Íslandi. Hana langar að hitta bestu vini sína og saknar þeirra allra. Hugsar mikið um þá. Hún æfir sig mikið að skrifa og teikna heima og skrifar oft og mörgum sinnum nöfnin á nokkrum vinum sínum, t.d. Lovísu, Sigga Val og Mörthu Clöru. Hún hefur líka verið að æfa sig að lesa og er bara orðin nokkuð góð að stauta sig áfram og að skrifa orð sem hún þekkir eftir því hvernig þau hljóma. Hún lærir þetta ekki í skólanum, ekki enn. Þetta kemur hún til með að læra allt öðruvísi líka á dönsku. Við erum mjög ánægð með þennan áhuga hennar á lestri og hrósum henni mikið fyrir árangurinn. Veit samt ekki hvort hún sé þá að læra eftir rangri aðferð? Verð að spyrja kennarana í fjölskyldunni. Veit ekki hvað hún lærir mikið í stærðfræði því erfitt að fá uppúr henni hvað hún gerir nákvæmlega í skólanum og hefur ekki enn fengið námsbækurnar með heim. Hún hefur samt verið að æfa sig hér heima og virðist vera farin að skilja einfalda samlagningu og frádrátt ágætlega. Hún hefur þá aðallega verið að leysa verkefni í Geitungnum. Hún var reyndar byrjuð á því síðasta vetur þegar áhuga á að skrifa og læra stafi vaknaði.
Á eftir ætlum við að mála okkur í framan og fara í hlutverk einhverra vætta og ráfa um nágrennið og leita að einhverju skemmtilegu. Við erum bara rétt að uppgötva Halloween og erum svolítið sein í þessu öllu saman. Við föttuðum ekki að kaupa grasker nógu snemma til dæmis en Sigga er að fá áhuga og því höfum við ákveðið að gera eitthvað aðeins úr þessu. Held reyndar að ekki sé sterk hefð fyrir Halloween hér. Verðum betur undirbúin á næsta ári.
Næstu helgi er Kagsaafest, hátíð þar sem nýjir Íslendingar eru boðnir velkomnir á kollegíið. Við borðum góðan mat saman í sal hér á svæðinu og er Eiríkur í matarnefndinni. Dagskrá verður fyrir börnin og skemmtiatriði fyrir fullorðna fólkið.
Nóg af þessu blaðri. Bið að heilsa ykkur.
Auður.
Abonner på:
Kommentarer til indlægget (Atom)
6 kommentarer:
Takk fyrir blaðrið:) Já það tekur tíma að aðlagast, upplifa nýja hluti á hverjum degi og læra nýtt tungumál og eignast nýja vini en þau eiga eftir að læra mikið á þessu og gefa þeim mikið. Já dáldið spennó að taka þátt í Halloween, ég hugsa að það sé ekki langt í að þessi siður verður tekinn upp á Íslandi!! Hafið það rosa gott, bið að heilsa:)
Sæl!
Það rifjast upp gamlar minningar við þennan lestur. Aðlögunin með börnin er frekar erfið fyrstu mánuðina en síðar verður þetta ekkert mál. Það er eitt að vera að rembast við að aðlagast sjálfur en allt annað að hafa áhyggjur af litlu skinnunum sem eru svo umkomulaus í ókunnu landi. Þau læra samt helling af þessu og verða ótrúlega ánægð með þessa reynslu síðar á æfinni enda ekki hægt að fá heilt tungumál eða víðari sjóndeildarhring fyrir peninga. Ég sendi hér með baráttukveðjur.
Kveðja,
Eva
Hæ aftur, ég sé að ég kom sem nafnlaus inn:) Ég gleymdi að skrifa undir commentið mitt, ...semsagt bestu kveðjur af klakanum, Anna Fanney:)
Hæ hæ
Þetta er heilmikið ferli í gangi hjá ykkur greinilega. Mikið sem þarf að vinna úr. En áður en þið vitið af verða hlutirnir auðveldari og allir geta notið þessa ævintýris án efa :)
Gangi ykkur vel. Þið eruð svo dugleg :)
Kv. Fjóla
Já, man eftir þessu ferli þegar ég var krakki, erfitt fyrst en áður en þið vitið af verður Sigga farin að skamma ykkur fyrir lélega orðanotkun og framburð....heheheeh..
kv
Fífa
Ha, ha, ja einmitt. Takk fyrir hughreystinguna og til hamingju med Hlyn.
Kv. Audur.
Send en kommentar